Beint í efni

Skuggamynd af þorpinu

Skuggamynd af þorpinu
Höfundur
Jónas Reynir Gunnarsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Jónas Reynir Gunnarsson er rithöfundur og ljóðskáld fæddur í Reykjavík árið 1987 og alinn upp í Fellabæ á austurlandi. Jónas braust fram á sjónarsvið íslenskra bókmennta haustið 2017 þegar hann sendi frá sér hvorki meira né minna en þrjár bækur á innan við mánuði; ljóðabókina Leiðarvísir um þorp sem kom út undir formerkjum Meðgönguljóða, skáldsöguna Millilendingu, og ljóðabókina Stór olíuskip sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sama ár. Allar þrjár bækurnar komu út hjá forlaginu Partusi sem tveimur árum fyrr gaf út smásögu Jónasar, „Þau stara á mig“, undir formerkjum Meðgöngumála. Það gæti reynst ungum höfundi erfitt að fylgja svo stórri frumraun eftir en á þeim sjö árum sem liðin eru hefur Jónas sent frá sér hvert verkið á fætur öðru og sýnt og sannað að hann er alls enginn „one hit wonder“ heldur einn ötulasti og áhugaverðasti rithöfundur sinnar kynslóðar. Í þessari umfjöllun verður reynt eftir bestu getu að varpa ljósi á höfundarverk Jónasar Reynis Gunnarssonar með áherslu á útgefnar skáldsögur hans og ljóðabækur og hvar betra að byrja annars staðar en á þrennunni frá 2017.

Það eru margar leiðir úr þorpinu

Það sem vekur strax athygli við þrennu Jónasar Reynis frá haustinu 2017 er hversu ólík verkin eru. Ljóðabækurnar tvær, Leiðarvísir um þorp og Stór olíuskip, og skáldsagan Millilending, glíma allar við ólík þemu en saman sýna þær þverskurð af helstu höfundareinkennum Jónasar sem birtast endurtekið í verkum hans. Leiðarvísir um þorp er án efa persónulegasta og jarðbundnasta bókin af þessum þremur og sver sig mjög í ætt við Meðgönguljóðaseríuna er innihélt gjarnan stuttar og einlægar ljóðabækur eftir höfunda sem voru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum. Bókin er greinilega innblásin af æsku höfundar í Fellabæ og inniheldur, eins og titillinn gefur til kynna, ljóð og hugleiðingar um ónefnt þorp úti á landi sem gæti verið eitthvað ákveðið íslenskt þorp en gæti líka verið táknmynd fyrir „þorpið“ sem hefur verið sögusvið svo margra íslenskra skáldverka í gegnum tíðina. Þorpið er bæði sögusvið og táknmynd sem birtist síendurtekið í verkum Jónasar, ljóðum og skáldsögum, eins og við eigum eftir að sjá betur síðar meir. Þorpið hjá Jónasi er bæði hlutlægur og huglægur staður en þó vekur athygli að þorpin í bókum hans eru aldrei nefnd á nafn, heldur standa sem eins konar staðleysa og tímaleysa í söguheiminum sem er jafn fljótandi og alltumlykjandi og innra líf sögupersónanna. Þetta sést glöggt í Leiðarvísi um þorp sem inniheldur bæði haldbærar lýsingar á staðháttum þorpsins en einnig ljóðrænni vangaveltur um hlutverk og eðli þorpsins. Í þessu samhengi má sérstaklega nefna lokaljóð bókarinnar, „Útgönguleiðir“ sem virkar sem eins konar stefnuyfirlýsing bókarinnar og hefst svo: „Það eru margar leiðir úr þorpinu. // Ein þeirra er ást“.

Síðar í ljóðinu birtast eftirfarandi línur sem mætti lesa sem eins konar spádóm og jafnvel einkunnarorð fyrir skáldskap Jónasar Reynis, svo miðlægt er þorpið í hans höfundarverki:

Hafðu þetta í huga þegar þú yfirgefur þorpið.

Á meðan þú varst hérna varð til skuggamynd af þorpinu í höfði þínu eins og ljósmynd verður til í myrkraherbergi þegar pappír er dýft í framköllunarvökva.

Þorpið er hérna fyrir þig. Það var byggt svo þú gætir verið gestur í því. Það var hannað til að móta þig eins og stein sem rennur eftir árstraumi niður að sjó.

Þessi straumur er leið þín úr þorpinu.

Þorpið er, eins og áður sagði, bæði hlutlægt og huglægt hjá Jónasi en þó vekur athygli að eins sínálægt og það er í skáldskap hans þá birtist það mun fremur sem eins konar fljótandi stærð heldur en fasti, þorpið er upphaf eða áfangastaður fremur en endastöð, staður sem sögupersónur bóka hans eru annað hvort að reyna að yfirgefa eða komast til.

Sjónarhorn lúsersins

Fyrsta skáldsaga Jónasar Reynis, Millilending, gerist á einum degi í lífi hinnar tuttugu og tveggja ára gömlu Maríu er hún millilendir í Reykjavík á leið sinni frá Bretlandi til Danmerkur þar sem hún hyggst hefja nýtt líf með föður sínum eftir misheppnaða flutninga til Brighton með fyrrverandi kærastanum, Ragnari. María er einstaklega áhugaverður og sérstakur karakter og í henni birtist annað af helstu höfundareinkennum Jónasar Reynis, stílbragð sem ég kýs að kalla sjónarhorn lúsersins. Söguhetjur Jónasar eiga það nefnilega flestar sameiginlegt að vera persónur sem þrátt fyrir að vera ekki beint utangarðs eða jaðarsettar, í þrengsta skilningi þess orðs, upplifa sig á einhvern hátt á skjön við samfélagið. Þetta eru veggjalýsnar og furðufuglarnir, fólkið sem eru fullgildir meðlimir samfélagsins en upplifa sig þó á einhvern hátt á utan við; nördarnir, lúserarnir eða bara fólk sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir. Jónas Reynir er manna flinkastur að skrifa um þessar týpur og í Maríu skapar hann persónu sem er í senn fyndin, áhugaverð og harmræn. Bókin er, líkt og flestar skáldsögur Jónasar, skrifuð í fyrstu persónu og lesendur fá því beinan aðgang að óhefluðu hugsanaflæði Maríu er hún ferðast um kaldranalegt borgarlandslag Reykjavíkur og reynir að leysa þau verkefni sem hún þarf að sinna í millilendingunni. Efst á þeim lista er að sækja liti fyrir föður sinn sem voru eitt sinn í eigu abstrakt-málarans Karls Kvaran. Út frá þessu spinnst tragikómísk atburðarás þar sem María flakkar þvers og kruss um höfuðborgarsvæðið á einum degi og hittir fyrir hvern furðufuglinn á fætur öðrum sem allir hafa mismunandi væntingar gagnvart henni. Þrátt fyrir að vera mjög afgerandi karakter er María ekki beint drífandi sögupersóna og eru flestar ákvarðanir hennar teknar sem viðbragð við utanaðkomandi aðstæðum eða væntingum annarra sögupersóna, svo sem vinar hennar Gauja og ömmu hennar. Hún þjáist af lágu sjálfsmati og ítrekuðum þráhyggjuhugsunum sem eru uppspretta langra innri einræðna sem eru í senn niðurdrepandi og óborganlega fyndnar:

Úlpan mín er örugglega á topp-tíu lista yfir ljótustu flíkur allra tíma. Hún er svo viðbjóðsleg að ég þyrfti sneiðmynd af heilanum í mér til að komast að því hvað ég var að hugsa þegar ég keypti hana. Þetta er svona glansandi úlpa sem lítur út fyrir að vera uppblásin og það ískrar í henni þegar maður hreyfir sig. Örugglega gerð í sömu plastverksmiðju og stólarnir á flugvellinum. Ég var í úlpunni af því að hún tók of mikið pláss í töskunni en líka vegna þess að hún var eina hlýja flíkin mín. Hún var alltof stór. Ég var eins og bolti í henni. Ég væri alveg til í að vera með svona ónáttúrulegt, öfgakennt sjálfstraust, þannig að ég þyrði að ganga í þröngum fötum, magabolum og einhverju álíka sem færi mér mjög illa. Í staðinn fer ég alla leið í hina áttina og enda í hörmung eins og þessari úlpu. (12)

Í Millilendingu kemur þriðja höfundareinkenni Jónasar Reynis sterkt í ljós; kaldhæðinn og lúmskur húmor, sem á sér oftar en ekki uppsprettu í fáránlegum og harmrænum aðstæðum sögupersónanna. Millilending er án efa fyndnasta bók höfundar, sem stafar fyrst og fremst af því hvernig karakter Maríu er skrifaður. Seinni skáldsögur Jónasar eins og Dauði skógar og Múffa innihalda vissulega einnig fyndna spretti en þó á mun lúmskari og yfirvegaðri hátt heldur en þessi fyrsta skáldsaga hans.

Þótt Millilending gerist alfarið í Reykjavík, að undanskildum nokkrum endurlitum frá Brighton, þá er þorpið síður en svo fjarverandi, því höfuðborgin sem birtist lesanda í gegnum sjónarhorn Maríu virkar sem eins konar útbelgt þorp, heimóttarlegur staður þar sem enginn fær að vera hann sjálfur og allir eru að leika eitthvað hlutverk.

Þó að ég væri að nuddast upp við fullt af ókunnugu fólki fannst mér eins og ég væri alveg út af fyrir mig, loksins sloppin úr þessari víðáttugeðveiki á Íslandi sem lætur fólki líða eins og það sé nakið og allir séu að horfa á það. (146)

Eða eins og rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl benti á í nokkurra ára gamalli Facebook-færslu, er Reykjavík, og Ísland allt, kannski orðið að myndlíkingu fyrir þorpið?

Að heiman, Truflunin, Stol, Millilending – er „ungmenni snýr aftur til Íslands til að finna sannleikann um lífið“ nýja „ungmenni snýr aftur til [insert krummaskuð] til að finna sannleikann um lífið“ íslenskra bókmennta? Er Ísland allt orðið „þorpið.[1]


Linsa kvikmyndagerðarmannsins

Það er yfirleitt skammt stórra högga á milli hjá Jónasi Reyni en árið 2018 fylgdi hann eftir þrennunni frá því árið áður með sinni annarri skáldsögu, Krossfiskar, sem kom einnig út hjá Partusi. Þótt Krossfiskar gerist líka í hinni köldu og aftengdu Reykjavík og fjalli um ungan sögumann sem er á skjön við samfélagið, þá gætu bækurnar tvær vart verið ólíkari. Á meðan Millilending er absúrd og fyndin frásögn sem er kyrfilega staðsett í raunveruleikanum þá er Krossfiskar ógnvekjandi og draumkennd frásögn sem spannar mörk hin raunsæja og súrrealíska. Sögumaður Krossfiska er hinn ungi og íðilfagri Daníel sem á erfitt með að fóta sig í lífinu eftir að hafa hætt í háskóla, sagt upp starfi sínu sem módel og gengið í gegnum sambandsslit. Daníel er ekki jafn afgerandi karakter og María úr Millilendingu en það sem drífur frásagnarboga hans helst áfram er núningurinn á milli þeirra ólíku væntinga sem hann hefur sjálfur til lífsins og þeirra væntinga sem aðrar sögupersónur hafa til Daníels. Daníel er náungi sem að utan frá virðist vera með allt sitt á hreinu; myndarlegur ungur maður sem hefur átt margar kærustur og setið fyrir sem módel fyrir öll helstu tímarit og tískuverslanir landsins, en í gegnum innra hugsanaflæði hans birtist hann lesendum sem óöruggur og stefnulaus drengur sem veit ekki hvað hann vill frá lífinu. Daníel upplifir þannig sjálfan sig sem lúser þrátt fyrir að samfélagið upplifi hann ekki endilega þannig:

Alltaf þegar ég byrja með stelpu líður mér eins og ég hafi platað hana. Það er þetta með að hlutir hætti að skipta máli. Ég get ekki sannfært mig um að ástarsambönd séu undanþegin. Og alltaf líður mér eins og það sé bara tímaspursmál hvenær blekkingin verði afhjúpuð. En það gerist aldrei, þær eru alltaf svo grunlausar, og að lokum þoli ég ekki að hafa þennan dauðadóm hangandi yfir mér og enda sambandið sjálfur. (18)

Af þessu skapast mikill ágreiningur þar sem persónurnar í lífi Daníels, svo sem mamma hans og Gunna, hans eini náni vinur, yfirfæra sínar væntingar yfir á Daníel sem samræmast ekki endilega hans eigin lífsskoðunum. Þegar Tryggvi, gamall skólafélagi Daníels úr grunnskóla, hefur svo samband við hann með alvarlegar ásakanir úr fortíðinni fer af stað dularfull atburðarás sem hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir Daníel og fjölskyldu hans.

Í Krossfiskum nýtir Jónas Reynir frásagnartækni sína til hins ýtrasta en fjórða af hans helstu höfundareinkennum eru myndrænar lýsingar sem minna um margt á linsu kvikmyndagerðarmanns. Verk Jónasar innihalda jafnframt oft vísanir í sjónræn listform svo sem myndlist og kvikmyndir svo ljóst er að sem höfundur er hann undir miklum áhrifum frá sjónlistum. Það ætti því ekki að koma á óvart að Jónas Reynir hefur sjálfur fengist við ljósmyndun sem áhugamaður. Krossfiskar er mjög djarft og sjónrænt verk og í síðasta þriðjungi bókarinnar eiga sér stað frásagnarleg hvörf sem minna fremur á kvikmyndir David Lynch eða 20. aldar súrrealisma heldur en íslenskar samtímabókmenntir. Þá er það augljóslega engin tilviljun að sá kafli sem hvörfin eiga sér stað ber heitið „Þorp“, en ómögulegt er að lýsa honum án þess að spilla fyrir söguþræði bókarinnar. Krossfiskar er mun myrkara og óræðara verk heldur en Millilending en tvö helstu þemu bókarinnar eru draumar og dauðinn, þemu sem birtast ítrekað í skáldsögum Jónasar Reynis.

Ljóðrænt landslagsmálverk

Það er einna helst í ljóðunum sem Jónas Reynir leyfir myndrænni frásagnargleði sinni að fá lausan tauminn. Önnur ljóðabók hans, Stór olíuskip, sem hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2017 er til að mynda mjög abstrakt verk sem samanstendur af stuttum númeruðum ljóðum sem spanna mörk hins draumkennda og hversdagslega svo minnir um margt á skáldskap Gyrðis Elíassonar. Í ljóði nr. 14 má til dæmis finna eftirfarandi ljóðlínur:

Ég vil keyra í gegnum nætursenu í málverki.
Gatan er blaut eins og málningin. Litirnir ýktir.
För eftir pensilinn í pollunum.

Bæði Stór olíuskip og þriðja ljóðabók höfundar, Þvottadagur, sem kom út 2019 hjá forlaginu Páskaeyjunni og hlaut ljóðaverðlaunin Maístjörnuna, innihalda myndlíkingar þar sem borgarlandslaginu er líkt við málverk. Þetta kallast einnig á við atvik úr skáldsögunni Millilendingu þegar söguhetjan María sprautar úr málningartúpum Karls Kvaran yfir frosna Tjörnina og dreifir úr litunum eins og einhvers konar nútíma Jackson Pollock. Í einu ljóði Þvottadaga, sem líkt og öll ljóð bókarinnar er án titils, má finna eftirfarandi ljóðlínur:

þegar snjóar verður borgin málverk sem flagnar af striganum

auða rýmið stækkar

fjarlægðin á milli húsanna okkar er að hverfa í hvíta auðn
eins og hugur gamallar konu sem farin er að gleyma

Hér mætti segja að höfundur afbyggi hið skáldlega málverk sitt sem leysist í sundur og verður að eins konar póstmódernískri sjálfsögu (e. metafiction).

Þvottadagar er ef til vill einlægasta verk Jónasar Reynis og fjalla mörg ljóðanna til að mynda um minningar þar sem ljóðmælandi í fyrstu persónu rifjar upp ýmis atvik úr bernsku sinni. Vissulega er hæpið að lesa ljóð sem ævisögulega heimild en gera má sterklega ráð fyrir því að þessi ljóðmælandi, sem segist vera fæddur árið 1987 og lýsir æsku sinni í þorpi á landsbyggðinni, sé sami Jónas Reynir og er fæddur 1987 og alinn upp í Fellabæ. Í einu skemmtilegasta ljóði bókarinnar lýsir ljóðmælandi atviki þegar honum áskotnaðist forláta körfuboltaspjald með mynd af Michael Jordan sem var svo sjaldgæft eftir að Jordan hætti tímabundið að spila körfubolta að það reyndist honum óbærilegt að halda því:

ég sat á spilinu
ég geymdi það í bók á náttborðinu hennar mömmu

það hvíldi á mér eins og sjúkdómur þar til ári síðar
að ég reif það í tætlur og henti því

ári seinna sendi Jordan út tveggja orða fréttatilkynningu:

I‘m back


Þinn eigin dómsdagur

Árið 2020 sendi Jónas Reynir frá sér sína þriðju skáldsögu sem ber hinn tregafulla titil, Dauði skógar. Bókin var gefin út af JPV útgáfu og markaði þannig þáttaskil í ferli höfundar sem fyrsta verk hans hjá stóru forlagi en hún hlaut jafnframt tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Dauði skógar er að mörgu leyti lágstemmdasta og raunsæjasta bók Jónasar Reynis, stutt skáldsaga sem lýsir raunum Magnúsar, miðaldra manns er býr ásamt fjölskyldu sinni í þorpi úti á landi er svipar mjög svo til Fellabæjar. En eins og með flestar bækur Jónasar Reynis þá liggur mun meira undir yfirborðinu en fyrstu blaðsíður gefa til kynna. Magnús á lítinn landskika með skógi sem faðir hans gróðursetti eftir að móðir hans dó og í kjölfar mikilla rigninga rennur skógurinn niður hlíðina og afhjúpar fjölda sprengja sem Magnús telur að hafi verið grafnar þar í síðari heimsstyrjöldinni. Skömmu eftir atvikið deyr faðir Magnúsar en í stað þess að leyfa sér að syrgja föður sinn verður dauði skógarins og uppgötvun sprengjanna að eins konar blóraböggli fyrir tilfinningalíf Magnúsar; undankomuleið sem hann getur einblínt á í stað þess að takast á við sorgina og fjölskylduvandamálin heima fyrir. Á sama tíma reyna Magnús og kona hans Hildur svo með mislukkuðum hætti að leysa hegðunarvandamál sonarins Alla sem er með þráhyggju gagnvart bekkjarsystur sinni.

Dauði skógar er tilvistarleg skáldsaga sem fjallar um sálarháska miðaldra karlmanns og sver sig þannig í ætt við „karlar í krísu“ bókmenntagreinina sem svo margir íslenskir rithöfundar hafa skrifað inn í. Magnús er að mörgu leyti hinn týpíski íslenski miðaldra karlmaður úr smábæ sem er uppfullur af tilfinningum sem hann skilur ekki fullkomlega og kann ekki að takast á við. Magnús þjáist af síendurteknum heimsendahugsunum um kjarnorkuvá og loftslagshamfarir sem virðast eiga upptök sín í því bernskuáfalli að hafa misst mömmu sína ungur að árum en hafa einnig verið innrættar í hann af föður hans:

Pabba varð tíðrætt um dómsdag þegar ég var að alast upp. Við vorum sammála um að loftsteinn hefði drepið risaeðlurnar, spurningin var hvað kæmi næst. Pabba og Harald vantaði ekki hugmyndir. Þeir töluðu um farsóttir, flóð og þurrka, og að sjálfsögðu kjarnorkustríð. Ég var skíthræddur við stríð. Og það var ekki mikið verið að hugga mann eða halda þessum spádómum frá manni. Ég reyndi að forða krökkunum frá fréttum eins og þessari með skógareldana en það var vonlaust, maður kveikti ekki á sjónvarpi eða útvarpi án þess að heyra eitthvað hræðilegt. (59)

Þegar skógurinn rennur niður hlíðina og afhjúpar sprengjurnar upplifir Magnús raunverulega dómsdagsvá á sínu eigin landi. Vá, sem þrátt fyrir að vera kannski ekki sá heimsendir sem hann hefur óttast frá barnsaldri, er engu að síður nógu stór til að snúa lífi hans á hvolf og verða að eins konar táknmynd fyrir innri sálarháska Magnúsar og fjölskylduvandamálin sem hann hefur sópað undir teppið eins og sönnum íslenskum karlmanni sæmir.

Dauði skógar er að sumu leyti mjög keimlík nýjustu skáldsögu Jónasar, Múffu, sem kom út haustið 2024 hjá Máli og menningu. Báðar bækur gerast í litlu ónefndu þorpi úti á landi og fjalla um miðaldra hjón í stöðnuðu hjónabandi að glíma við fjölskylduvandamál sem eiga rætur sínar að rekja til kynhegðunar sonar þeirra og óuppgerðra áfalla úr fortíðinni. Bækurnar fjalla auk þess báðar um dauðann og hversdagslíf íslensks fólks í millistétt, eru lágstemmdar á yfirborðinu en með drungalegum undirtóni sem vex eftir því sem líður á frásögnina. Eitt af því sem einkennir skáldsögur Jónasar Reynis, að undanskilinni Millilendingu, er ákveðinn undirliggjandi uggur sem getur verið erfitt að henda reiður á þegar maður er staddur í miðri bók en umlykur nánast öll skáldverk hans eins og þoka eða dularfullur draumur sem erfitt er að hrista af sér.

Á meðan Dauði skógar kannar hversdagslíf miðaldra þorpsbúa út frá tilvistarspeki og heimsenda þá kannar Múffa sama sögusvið með verkfærum sálgreiningar og frumspeki. Bókin segir frá hjónunum Ölmu, sem er doktor í heimspeki, og Bjössa, sem er verkfræðingur. Alma og Bjössi búa í í ónefndu þorpi úti á landi ásamt Markúsi, fullorðnum syni Bjössa, sem eyðir öllum sínum tíma í tölvunni og virðist glíma við einhvers konar tauga- eða þroskaröskun. Það er einstaklega snjallt frásagnarbragð af Jónasi Reyni að láta Ölmu vera doktor í heimspeki því það gerir tilvistarlegar og heimspekilegar vangaveltur bókarinnar þeim mun meira áberandi og gefur höfundi afsökun til þess að kafa enn dýpra í þau þemu sem hann hefur verið að fást við í nánast öllum skáldsögum sínum; á borð við dauðann, drauma og einsemdina.

Hún hugsaði um að hverfa í tómið. Hún hugsaði um Margréti, barnsmóður Bjössa sem hafði horfið í tómið fyrir um þrjátíu árum síðan, og hún hugsaði um Reinhold, vin sinn úr menntaskólanum, og hvernig fjölskylda hans hafði líka horfið í tómið. Einhver fyrirboði lá í loftinu. Þessi nótt, nákvæmlega þessi nótt, hafði beðið hennar allt hennar líf. Húsið hafði verndað hana en nú var hún komin út og átti á hættu að hverfa í tómið. (11)

Þegar Bjössi kemst að því að Alma hefur pantað kynlífsmúffu fyrir son hans Markús opnast sprunga í hjónabandi þeirra sem storkar ekki bara fjölskyldudýnamíkinni heldur sendir þau öll þrjú hraðbyri í átt að tilvistarlegu hengiflugi. Múffa er launfyndin og ískyggileg bók þar sem mörkin á milli hins kunnuglega og hins undarlega eru jafn óljós og mörk dags og nætur í íslenska skammdeginu. Þá er endir bókarinnar sennilega einn sá mest spennandi og djarfasti sem runnið hefur undan rifjum Jónasar Reynis síðan hann sendi frá sér Krossfiska.

Uggur og ofskynjanir

Ég ætla að enda þetta yfirlit á þeirri skáldsögu Jónasar Reynis sem er í senn ein sú best heppnaða og sú óvenjulegasta af þeim fimm sem hann hefur sent frá sér, Kákasus-gerlinum sem kom út hjá Máli og menningu árið 2022. Mögulega er Kákasus-gerillinn líka eina prósaverk Jónasar Reynis sem getur með réttu flokkast sem skáldsaga, því allar hinar skáldsögur hans eru innan við 200 blaðsíður að lengd og ættu tæknilega séð að flokkast sem nóvellur, form sem af einhverri ástæðu hefur aldrei þótt nógu fínt innan íslenska bókmenntaheimsins til að verðskulda sérstakan flokk. Kákasus-gerillinn er líkt og allar bækur Jónasar Reynis, ákaflega tilvistarleg bók og í henni beinir höfundur sjónum að hugbreytandi efnum og þeim áhrifum sem þau hafa á vitund okkar og skynjun. Bókin er sögð frá sjónarhorni tveggja aðalpersóna; Báru, sem er að vinna að hlaðvarpsþáttum um hugbreytandi efni, og ljósmyndaranum Eiríki Mendez, sem lést ungur að árum í tengslum við tilraunir sínar með ofskynjunarlyf. Sagan gerist á tveimur tímaskeiðum, annars vegar í nútímanum þar sem segir frá tilraunum Báru til að komast að sannleikanum um dauða Eiríks, og hins vegar undir lok síðustu aldar, þar sem lífshlaup Eiríks er rakið. Í Kákasus-gerlinum heldur Jónas Reynir jafnframt áfram að þróa sinn myndræna stíl sem minnir á linsu kvikmyndagerðarmanns, það er því einkar viðeigandi og engin tilviljun að Eiríkur Mendez skuli vera ljósmyndari en í þeirri listgrein finnur hann ljóðræna samsvörun við hugbreytandi áhrif ofskynjunarlyfjanna:

Eftir kennslustundina fór Eiríkur í myrkraherbergið að framkalla filmur. Hann sá ekkert, ekki ljósglætu, og gat með engu móti áttað sig á rýminu sem hann var í. Það var eins og það væri ekki til. Fyrst vakti tilhugsunin með honum kvíða en svo róaði hún hann. Þögn og myrkur, sem hann tengdi orðið helst við ljósmyndun, voru einu svörin sem sögðu honum eitthvað. Þau voru eina meðalið við óeirðinni, eða hvaða tilfinningu sem þetta var eiginlega sem hafði fylgt honum alla ævi eins og móðurmálið. (29)

Kákasus-gerillinn er bæði uggvænleg og gríðarlega spennandi skáldsaga og í henni sameinar Jónas Reynir það besta úr þeim myndræna tryllingi sem gerir Krossfiska svo áhrifaríka við þær tilvistarlegu vangaveltur sem einkenna Dauða skógar og Múffu. Í Eiríki og Báru tekst honum jafnframt að skapa persónur þar sem sjónarhorn lúsersins þjónar ekki bara þeim tilgangi að aðgreina persónurnar frá samfélaginu heldur gefur þeim raunverulegan frásagnarlegan drifkraft og er notað til að kanna innra tilfinningalíf og samfélagsstöðu þeirra. Í gegnum myndavélarlinsu Eiríks og hlaðvarpsrannsóknir Báru vefur Jónas frásögn sem er ólík nánast öllu öðru sem undirritaður hefur lesið í íslenskum samtímaskáldskap. Raunar má velta því fyrir sér hvort Kákasus-gerillinn hafi verið of frumleg og sérstök bók fyrir íslenskan bókamarkað, í það minnsta vakti hún ekki verðskuldaða athygli þegar hún kom út fyrir rúmum tveimur árum.

Það ætti að vera ljóst af þessari yfirferð að Jónas Reynir Gunnarsson er ein af áhugaverðustu röddum sinnar kynslóðar og hefur þróað með sér skýra fagurfræði og höfundareinkenni sem gera verk hans einstök á íslenskan mælikvarða. Bækur Jónasar Reynis tala beint inn í íslenskan samtíma með umfjöllunarefnum sínum á sama tíma og þau standa fullkomlega sjálfstæð sem ögrandi listaverk með skýra hugmyndafræði. Þá á myndrænn ritstíll höfundar sér fáar fyrirmyndir þar sem áhrifa gætir víða úr sjónrænum listum á borð við myndlist og kvikmyndir. Það er einlæg ósk undirritaðs að Jónas Reynir haldi áfram að þróa sína höfundarrödd um ókomin ár og auðgi íslenskt bókmenntalandslag í leiðinni.


Þorvaldur S. Helgason, desember 2024.

 

[1] Eiríkur Örn Norðdahl, Facebook, 4. febrúar 2021.