Beint í efni

Eldri konur

Eldri konur
Höfundur
Eva Rún Snorradóttir
Útgefandi
Benedikt
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Ung kona gefur rapport af þráhyggju sinni fyrir eldri konum og rekur líf sitt frá barnæsku til fullorðinsára gegnum frásagnir af konum sem hafa heltekið hana. Eldri konur er röntgenmynd af ástandi. Við kynnumst konunni með ólíkum brotum af sögu hennar, uppvexti í flóknum heimilisaðstæðum, mismunandi vinnustöðum, vináttu, ástum, sigrum og ósigrum.

Eva Rún Snorradóttir hefur áður sent frá sér ljóðabækurnar Heimsendir fylgir þér alla æviTappi á himninum og Fræ sem frjóvga myrkrið sem og sagnasveiginn Óskilamunir.

Þetta er hennar fyrsta skáldsaga.

Úr bókinni

Í Listaháskólanum fann ég ólgunni og doðanum farveg, ég var reið og rugluð lesbía sem var til alls vís og var komin í samhengi þar sem það þótti spennandi. Ég upplifði mig séða. Við vorum öll með svipaða nálgun í bekknum. Við vorum gagnrýnin á neyslumenninguna og höfðum gaman af smekkleysi hennar. Gerðum pólitísk verk með póstmódernískri nálgun, fyndin, soldið draslaraleg, í DIY-stíl og kaldhæðnin upp í topp. Ekkert mátti segja beint út. Kaldhæðnin í listinni var svo megn að hún lak inn í vináttuna og tilhugalífið. Það var svona næstum því í djóki að við værum að hanga saman. Ef þú varst að sofa hjá einhverri komst aldrei upp hvort áhugi væri fyrir einhverju alvarlegu því engin vildi gefa upp minnstu merki um hvernig líðanin var. Þetta voru hinar lífvænlegustu aðstæður fyrir mig.

 

Sumarið eftir fyrsta árið í Listaháskólanum, uppveðruð af velgengni minni, réð ég mig sem verkstjóra í unglingavinnunni. Ég þurfti vinnu, var komin í háskóla, mér voru allir vegir færir. Það reyndist hryllingur. Skömmin spratt upp af svo miklum krafti að ég varð alveg mállaus. Mér fannst ég ekkert kunna, gat ekki sagt frá neinu, ekki gefið nein fyrirmæli. Upplifði mig svo litla, faldi mig í runnum. Unglingarnir léku lausum hala og ekkert var unnið. Ég grét einlæglega yfir því að vera svona óburðug. Lét mig hverfa á þriðja degi. Yfirmenn mínir, allt staðalímyndar-heilbrigt fólk í flíspeysum, urður hrikalega ósáttir. Ég reyndi ekki að útskýra fyrir þeim að ég væri í raun og sanni ófær í þessa vinnu, þótt takmarkanirnar sæust ekki utan á mér. Taldi það ekki líklegt til að mæta skilningi, leyfði þeim að ráða yfir sögunni af brotthvarfi mínu.

 

Kunningi í skólanum reddaði mér vinnu á lokaðri deild á Kleppi. Fljótlega var ég farin að sjá um fólk sem bar sögu geðlæknisfræðinnar á sér og með sér. Þau höfðu verið læst í sellum, í spennitreyjum, höfðu verið flutt úr litlum, lokuðum skúrum fyrir dýr í sveitinni, sett í lóbótómíu, fengið fyrstu geðlyfin sem ollu þeim ógurlegum taugakippum í andlitinu. Þetta ver í raun ekki mjög ólíkt myndlistinni. Tilraunakennt, á jaðrinum, kjarni lífsins, allar stóru spurningarnar í loftinu. Hildur sagði: „Þú leitar alltaf í veruleikaflótta, ferð í myndlist og svo nú í geðveikina.“ Ég hélt því fyrir mig sjálfa að mér fyndinst ég vera að leita í raunveruleikann eða kannski frekar að leita að honum.

(s.52-53)

Fleira eftir sama höfund

Óskilamunir

Lesa meira

Heimsendir fylgir þér alla ævi

Lesa meira
góða ferð inn í gömul sár

Góða ferð inn í gömul sár

Verkið Góða ferð inn í gömul sár er gríðarlega þarft innlegg í hinsegin minnisfræði á Íslandi.
Lesa meira
Tappi á himninum kápa

Tappi á himninum

Unglingsstúlka í Neðra-Breiðholti fótar sig í lífinu og reynir að ná höndum yfir innri hyldýpi.. . Önnur ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur
Lesa meira
Fræ sem frjóvga myrkrið kápa

Fræ sem frjóvga myrkrið

Fræ sem frjógva myrkrið fjallar meðal annars um nærfatakaup í sólarlandaferðum og far til að sýna þeim heima.
Lesa meira