Fréttir

1005 er búið

Þriðji árgangur tímaritraðarinnar 1005 lítur dagsins ljós sunnudaginn 10. maí. Af því tilefni efnir Kind forlag til útgáfuhátíðar í Mengi, Óðinsgötu 2 í Reykjavík kl.16.00 þennan sama dag. Þar gefst bókmenntaunnendum kjörið tækifæri til að njóta stundarinnar og skáldskaparins.

1005 færir lesendum sínum að þessu sinni sjö fallegar og vekjandi bækur. Þær eru: Eftirherman eftir Thomas Bernhard í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar, Fæðingarborgin: Bréfabók í útgáfu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, ljóðabókin Blindur hestur eftir Eirík Guðmundsson, nóvellurnar Jarðvist eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur og Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen, smásagnasafnið Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur eftir Ragnar Helga Ólafsson og loks örævisagan Herra Þráinn eftir Jón Karl Helgason.

Á útgáfuhátíðinni verður boðið upp á léttar veitingar, lesið verður úr nýju verkunum, og upplýst verður um dulda merkingu titilsins 1005. Síðast en ekki síst verður frumfluttur ópusinn „Þetta er búið“ eftir Jón Hall Stefánsson í flutningi Megasar og húshljómsveitar 1005 . Þeir sem koma í Mengi til að sækja sér þetta síðasta hefti tímaritraðarinnar fá að auki sérstakan vorglaðning, geisladisk með heildarsafni þeirra tónsmíða sem orðið hafa í til í tengslum við starfsemi 1005 á liðnum árum.

Útgáfuhátíðin er haldin í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

1005 árið 2015

Nánar um verkin í þriðja árgangi 1005:

Verk Thomas Bernhard (1913-1989) hafa verið kölluð merkasta afrek bókmenntanna eftir síðari heimstyrjöldina og er Bernhard almennt álitinn einn af mikilvægustu þýskumælandi höfundum nútímans. Í Eftirhermunni er að finna úrval smáprósa úr verki Bernhards, Der Stimmenimitator (1978) í íslenskri þýðingu Óskars Árna Óskarssonar. Verkið er tilvalinn inngangur að sérstæðum sagnaheimi Bernhards, textarnir eru stuttir en hnitmiðaðir, ofsafengnir en léttir og gáskafullir. Áður hefur komið út á íslensku eftir sama höfund skáldsagan Steinsteypa í þýðingu Hjálmars Sveinssonar.

„Bréf Che til móður sinnar minna mig svolítið á bréfin sem þú skrifaðir foreldrum þínum á Fjöllum þegar þú varst í Brasilíu og Argentínu. Ég ætla að lesa þau aftur núna þegar ég kem upp á hótel.“ Fæðingarborgin hefur að geyma safn sendibréfa sem ferðalangarnir Oddný Eir Ævarsdóttir, Ævar Kjartansson og Che Guevara senda frá ólíkum áfangastöðum heim til foreldra sinna á síðari hluta tuttugustu aldar og fyrstu árum þeirrar tuttugustu og fyrstu. Meðal þess sem sameinar þessi persónulegu og heillandi skrif er fæðingarborg síðastnefnda bréfritarans, Rosario í Argentíu. Oddný Eir annaðist útgáfuna en meðal fyrri verka hennar má nefna Opnun kryppunnar (2004), Jarðnæði (2011) og Ástarmeistarinn (2014).

Blindur hestur er fyrsta ljóðabók Eiríks Guðmundssonar, sem áður hefur sent frá verk á borð við 39 þrep á leið til glötunar (2004), Undir himninum (2006) og Sýrópsmánann (2010). Dularfullur riddari fer um borgina og forðast allar ruddar brautir, hann ríður blindum hesti út í óvissu heims og lífs. Þrátt fyrir blindu sína, leiðir hesturinn lesandann á vit stjörnubjartra himna og heillaðra hjarta, um leið og hann opnar fyrir honum gáttir skáldskaparins sem sætta söguhetjuna við hið ósættanlega. Margir tímar mætast í ljóðum Eiríks; þau eru ofsafengin og kyrrlát, súrrealísk og einlæg.

Náma í iðrum jarðar, lítill matur, veik von, slatti af örvæntingu, þrjúhundruð tár, ca. tuttugu bréf (raunveruleg og ímynduð), söngur, dans, háski og blóð. Kveikja nóvellunnar Jarðvistar eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur voru námuslys í Suður-Ameríku þar sem hópar námuverkamanna voru innilokaðir um margra vikna skeið. Raddir níu einstaklinga úr slíkum hópi taka að hljóma utan úr myrkrinu. Eftir því sem tíminn silast áfram fara aðstæðurnar og óvissan að reyna á samheldni hópsins og hin óljósu mörk mennskunnar. Sigurlín Bjarney hefur áður sent frá sér bækurnar Fjallvegir í Reykjavík (2007), Svuntustreng (2009) og Bjarg (2013).

Hönnun skjaldarmerkja, handbókin Sjafnaryndi, þrif sameignarinnar og ökuleiðir ísbílsins um uppsveitir Árnessýslu eru meðal viðfangsefna í fyrsta smásagnasafni Ragnars Helga Ólafssonar, Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur. Á meðan sumir textarnir miðla melankólískum söknuði eftir hryllilegustu stundum æskuáranna sverja aðrar sig í ætt við fjarstæðukennd skrif Franz Kafka og Jorge Luis Borges. Ragnar er myndlistarmaður og hönnuður og haslaði sér völl sem rithöfundur fyrir tveimur árum með Tunglbókinni Bréf frá Bútan (2013).

Tvöfalt gler er bæði gegnsætt og einangrandi, á bak við það leynist líf sem lifað er af ýtrustu kröftum, líf sem hamast á glerinu eins og fluga að hausti, sem er enn sólgin í birtuna. Nóvellan Tvöfalt gler eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen er þroskasaga skarpgáfaðrar og ástríðufullrar eldri konu sem dauðinn hefur boðið upp í dans. Meðal fyrri skáldverka Halldóru eru Hárfínar athugasemdir (1998), 90 sýnir úr lífi mínu (2002) og Aukaverkanir (2007).

Herra Þráinn, líkt og sum fyrri verk Jón Karls Helgasonar, rásar á alvörulausum mörkum fræða og skáldskapar. Lesandinn slæst í för með herra Þránni sem ver dýrmætum tíma í að hlusta á Þórhall miðil í útvarpinu, skoða Marlboro-auglýsingar í erlendum tímaritum og horfa á ljósmynd af Sophiu Loren og Jayne Mansfield inni á klósetti, milli þess sem hann svitnar í spinning í World Class.  Sá sem hefur séð sjálfsupptekinn nútímann með augum herra Þráins mun í versta falli rakna úr áralöngu roti og í besta falli yppta öxlum. Meðal fyrri verka Jóns Karl eru Ferðalok (2003), Mynd af Ragnari í Smára (2009) og Ódáinsakur (2013).

Í umfjöllun um annan árgang 1005 fullyrti Helgi Ingólfsson tímaritröðina vera „meðal metnaðarfyllstu útgáfuverkefna íslenskra bókmennta á síðustu misserum“. Í upphaflegri ritnefnd voru Sigurbjörg Þrastardóttir, Hermann Stefánsson, Jón Hallur Stefánsson, Oddný Eir Ævarsdóttir, Þröstur Helgason, Eiríkur Guðmundsson, Jón Karl Helgason og Ragnar Helgi Ólafsson. Fyrir útgáfu annars árgangs gengu Sveinn Yngvi Egilsson og Bragi Ólafsson inn í ritnefndina og á þessu ári hafa Halldóra Kristín Thoroddsen, Óskar Árni Óskarsson og Sigurlín Bjarney Gísladóttir bæst í hópinn. Frá upphafi var ákveðið að gefa einungis út þrjá árganga og hefur þeim fyrst og fremst verið dreift til áskrifenda. Þeir sem hafa hug á að gerast áskrifendur og eignast þriðja árganginn geta haft samband við forlagið í netfanginu 1005.timaritrod@gmail.com.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál